Fyrirliðinn skoraði þrennu gegn Leeds

Pierre-Emerick Aubameyang kom Arsenaæ yfir á Emirates í dag.
Pierre-Emerick Aubameyang kom Arsenaæ yfir á Emirates í dag. AFP

Arsenal vann 4:2-heimasigur gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu rétt í þessu þar sem fyrirliðinn Pierre-Emerick Aubameyang sneri aftur í liðið og skoraði þrennu er heimamenn náðu fjögurra marka forystu.

Aubameyang, sem missti af síðustu leikjum af persónulegum ástæðum, braut ísinn í dag með laglegu marki á 13. mínútu. Hann kom sér þá inn í vítateig, lék á varnarmann og stýrði svo knettinum með hnitmiðuðu skoti í nærhornið.

Heimamenn héldu svo að þeir væru að fá vítaspyrnu á 34. mínútu þegar Bukayo Saka féll inn í vítateig eftir að Liam Cooper stjakaði við honum. Stuart Attwell dómari benti á punktinn en sneri ákvörðun sinni við eftir að hafa horft aftur á atvikið á myndbandi.

Það var hins vegar enginn vafi sex mínútum síðar þegar Illan Meslier gerðist sekur um afglöp í marki Leeds, missti boltann til Saka innan teigs og felldi sóknarmann Arsenal. Vítaspyrna dæmd og Aubameyang skoraði af öryggi. Vont varð svo verra fyrir gestina rétt fyrir hálfleik er Hector Bellerín skoraði þriðja markið úr þröngu færi á nærstöngina, sennilega hefði Meslier átt að gera betur í markinu.

Leikurinn virtist svo endanlega búinn snemma í síðari hálfleik þegar fyrirliðinn innsiglaði þrennu sína á 47. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Emile Smith-Rowe. Gestirnir áttu þó ágætis áhlaup og löguðu stöðuna fyrir leikslok. Pascal Struijk minnkaði muninn með skallamarki í kjölfar hornspyrnu á 58. mínútu áður en Hélder Costa skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Tyler Roberts tuttugu mínútum fyrir leikslok, lokatölur 4:2.

Arsenal fór upp fyrir Leeds með sigrinum og er nú í 10. sæti með 34 stig en Leeds í 11. með 32 stig. Liðið á þó leik til góða, Arsenal hefur leikið 24 leiki en Leeds 23.

Arsenal 4:2 Leeds opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert