David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, segir að Sir Alex Ferguson fylgist náið með Jesse Lingard sem nú er að láni hjá West Ham frá Manchester United.
Lingard gekk til liðs við David Moyes og félaga í lok janúar og verður hjá liðinu út þessa leiktíð en hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir liðið. „Hann verður hér í stutta stund en ég hef nú þegar talað við Sir Alex sem bað fyrir kveðju til Lingards. Hann fylgist með honum, enda var Lingard hjá honum sem ungur strákur á Old Trafford,“ sagði Moyes á blaðamannafundi sínum fyrir leik West Ham gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Lingard er uppalinn hjá Manchester United og var í unglingaliði félagsins þegar Ferguson stýrði félaginu en Skotinn er einn sigursælasti knattspyrnustjóri allra tíma. „Það sýnir bara hvaða áhuga Sir Alex hefur á öllum ungu leikmönnunum sem voru hjá honum, hann var ánægður að sjá Lingard byrja vel hjá okkur.“