Mikel Arteta, knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Arsenal, segir liðsmenn sína þurfa að vera óvægnari.
Arsenal er búið að tapa tveimur leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og hefur aðeins unnið tvisvar í síðustu átta leikjum í deildinni.
„Það vantar upp á að vera óvægnari sem stendur. Við gáfum mark í leiknum gegn [Aston] Villa og klúðruðum svo sjálfir tveimur dauðafærum,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í gær, en eina mark þess leiks kom eftir afleit mistök portúgalska bakvarðarins Cédric Soares.
Arsenal tapaði þar á undan 1:2 gegn Wolverhampton Wanderers, þegar David Luiz fékk á sig víti og beint rautt í stöðunni 1:0 fyrir Arsenal.
„Við gáfum leikinn frá okkur gegn Úlfunum. Við fengum tækifæri til þess að klára leikinn. Jafnvel þó að við gerum mistök verðum við að reyna að leiðrétta þau og vera óvægnir í vítateig andstæðinganna, og það gerðum við ekki. Þá ertu ekki að fara að vinna knattspyrnuleiki,“ bætti hann við.
Arsenal heimsækir Leeds í ensku úrvalsdeildinni klukkan 16.30 í dag og telur Arteta að lið hans eigi góða möguleika á að sækja sigur þrátt fyrir að Leeds sé gott lið.
„Fyrir það fyrsta verðum við að jafna mikla orku þeirra og vera yfir á því sviði. Svo verðum við að spila okkar leik og taka hann þangað sem við viljum og ekki þangað sem þeir vilja. Ef við gerum það eigum við góða möguleika á að vinna,“ sagði Arteta.