Úlfarnir bættu á kvalir Dýrlinganna

Pedro Neto skoraði sigurmark Úlfanna í dag.
Pedro Neto skoraði sigurmark Úlfanna í dag. AFP

Wolverhampton Wanderers vann sterkan 2:1 sigur á útivelli gegn Southampton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Dýrlingarnir í Southampton hafa þar með tapað sex leikjum í röð í deildinni.

Um miðjan fyrri hálfleikinn tóku heimamenn í Southampton forystuna. Stuart Armstrong geystist þá af stað upp vinstri kantinn, fór auðveldlega fram hjá Adama Traoré og Nélson Semedo, gaf fyrir og þar kom Danny Ings á ferðinni og skoraði með þrumuskoti á lofti, afar fallegt mark.

Staðan var því 0:1 í hálfleik, Southampton í vil, en snemma  í þeim síðari jöfnuðu Úlfarnir metin. Þar var að verki Rúben Neves úr vítaspyrnu sem hafði verið dæmd eftir að Ryan Bertrand handlék knöttinn í teignum eftir fasta fyrirgjöf Semedo. Neves skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni.

Á 65. mínútu komust Úlfarnir svo yfir. Pedro Neto fékk þá góða sendingu út á hægri kantinn frá Neves. Neto lék með boltann inn í teig, hótaði fyrirgjöfinni, fór auðveldlega fram hjá Jannik Vestergaard og kláraði laglega með vinstri fæti úr þröngu færi, 2:1.

Það urðu lokatölur og góður sigur Úlfanna því staðreynd.

Auk þess að hafa nú tapað sex leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni hefur liðið aðeins unnið einn leik í síðustu 11 deildarleikjum, sem var 1:0 heimasigur gegn Liverpool í ársbyrjun.

Með sigrinum fara Úlfarnir upp fyrir Southampton í 12. sæti deildarinnar. Southampton fer þar með niður í 13. sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert