United missteig sig

Bruno Fernandes er lykilmaður Manchester United.
Bruno Fernandes er lykilmaður Manchester United. AFP

Manchester United fór illa að ráði sínu þegar liðið heimsótti West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í dag. Skildu liðin jöfn eftir að hafa skorað sitt hvort markið í fyrri hálfleik.

Strax á annarri mínútu leiksins komst WBA óvænt yfir. Conor Gallagher átti þá góða fyrirgjöf inn á vítateiginn og Mbaye Diagne var afar grimmur í baráttunni við Victor Lindelöf og skallaði boltann í netið.

Örskömmu fyrir leikhlé jafnaði Man Utd svo metin. Luke Shaw átti þá góða fyrirgjöf út í vítateiginn þar sem Bruno Fernandes tók glæsilegt skot á lofti með vinstri fæti sem steinlá í netinu.

Á 62. mínútu fékk Man Utd vítaspyrnu. Craig Pawson dómari mat það sem svo að Semi Ajayi hafi togað Harry Maguire niður í teignum. Maguire virtist rangstæður í aðdragandanum og var dómurinn dreginn til baka eftir að Pawson ráðfærði sig við VAR-skjáinn, þó skýringin á stóra skjánum hafi verið sú að ekki hafi verið um brot að ræða.

Á 79. mínútu fékk Diagne dauðafæri til þess að koma WBA yfir á ný. Hann var þá í baráttunni við Maguire og náði að pota boltanum á undan honum, var þá skyndilega kominn einn gegn David de Gea en skaut beint á hann, reyndi að ná frákastinu en de Gea náði að blaka boltanum frá.

Á 88. mínútu fékk Diagne annað dauðafæri. Þá átti Darnell Furlong frábæra fyrigjöf með jörðinni en Diagne skaut yfir af stuttu færi.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma var Maguire hársbreidd frá því að tryggja Man Utd sigurinn. Shaw átti þá flotta fyrirgjöf sem Maguire skallaði í átt að marki, Sam Johnstone í marki WBA náði að setja fingurgómana í boltann og þaðan fór hann í stöngina og út.

Eftir það var flautað til leiksloka og liðin deildu þar með stigunum.

Jafnteflið þýðir að Man Utd endurheimtir annað sæti deildarinnar og er nú með jafn mörg stig og Leicester City í þriðja sætinu en með betri markatölu.

WBA er áfram í næstneðsta sæti deildarinnar, 12 stigum frá öruggu sæti.

WBA 1:1 Man. Utd opna loka
96. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með jafntefli eftir æsilegar lokamínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert