Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag fyrir leikinn gegn RB Leipzig í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld. Illa hefur gengið hjá Englandsmeisturunum sem hafa tapað þremur leikjum í röð en Klopp játaði sig sigraðan í titilbaráttunni heima fyrir um helgina.
„Það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér,“ sagði Klopp á blaðamannafundinum en hann var í góðu skapi þrátt fyrir erfitt gengi liðsins. „Við æfðum áðan og erum allir jákvæðir og tilbúnir í slaginn á morgun.“
Klopp stýrði Liverpool til sigurs í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum og gerði liðið svo að enskum meistara ári síðar. Stuðningsmenn félagsins hafa því skiljanlega ekki gefist upp á stjóranum þrátt fyrir erfiðar vikur og hengdu meðal annars upp borða fyrir utan Anfield, heimavöll félagsins, með hvatningarorðum til Þjóðverjans.
„Borðinn var indæll, mér finnst ég ekki þurfa auka stuðning en hann var indæll. Þetta hefur verið erfitt tímabil en við tökumst á við það. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér, skeggið verður grárra og ég sef ekki mikið en ég er fullur orku,“ sagði Klopp.
Leikur Leipzig og Liverpool fer fram í Búdapest í Ungverjalandi annað kvöld. Ensk félög mega ekki koma til Þýskalands til 17. febrúar hið minnsta vegna sóttvarnaráðstafana og því getur Leipzig ekki spilað á sínum heimavelli.