Anthony Martial, sóknarmaður enska knattspyrnuliðsins Manchester United, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum í kjölfar jafnteflis liðsins við West Brom í úrvalsdeildinni í gær. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem franski sóknarmaðurinn verður fyrir barðinu á slíku.
Martial og liðsfélagi hans Marcus Rashford voru níddir á samfélagsmiðlum eftir markalaust jafntefli gegn Arsenal í lok janúar og vakti það hörð viðbrögð. Manchester United fordæmdi hegðunina harðlega í yfirlýsingu og forráðamenn deildarinnar kölluðu eftir því að samfélagsmiðlar á borð við Twitter og Instagram gerðu meira í því að koma í veg fyrir samskonar hegðun notenda sinna.
Samtökin Kick It Out, sem berjast gegn kynþáttafordómum í knattspyrnu, hafa nú gagnrýnt níðið sem Martial varð fyrir í gær en jafnframt kallað það fyrirsjáanlegt.