Einn lykilmaður snýr aftur en annar meiddur

Kevin De Bruyne snýr aftur en Ilkay Gündogan er meiddur.
Kevin De Bruyne snýr aftur en Ilkay Gündogan er meiddur. AFP

Kevin De Bruyne snýr aftur í leikmannahóp Manchester City þegar liðið ferðast til nágranna sinna í Everton í frestuðum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Ilkay Gündogan, sem hefur farið á kostum á tímabilinu og skorað 11 mörk af miðjunni í deildinni, er hins vegar meiddur og missir af leiknum.

De Bruyne hefur misst af síðustu sjö leikjum City í öllum keppnum en hefur æft af fullum krafti undanfarna daga og verður því í hópnum í kvöld. Þetta staðfesti Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins, á blaðamannafundi í dag.

Á fundinum staðfesti Guardiola einnig að Gündogan væri að glíma við nárameiðsli og myndi því ekki vera í leikmannahópnum í kvöld. Hann verður þó ekki lengi frá.

„Ég held ekki, honum líður mjög vel. Hann ferðast ekki með okkur vegna þess að við viljum ekki taka áhættuna. Við myndum kannski gera það ef um væri að ræða úrslitaleik eða annan sérstaklega mikilvægan leik en sem stendur viljum við ekki taka áhættuna.

Það eru margir leikir fram undan. Þetta er ekki neitt stórvægilegt vandamál sem hann er að glíma við en við verðum að vera varkárir,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert