Ný heimildarmynd um fyrrverandi knattspyrnustjórann sir Alex Ferguson er væntanleg í sumar. Í myndinni, sem ber heitið Sir Alex Ferguson: Never Give In, verður farið yfir mikilvægustu augnablikin í lífi goðsagnarinnar, sem gjarnan er talinn einn besti knattspyrnustjóri sögunnar.
Í heimildarmyndinni verður saga Fergusons allt frá rótum hans þegar hann var að alast upp í verkamannastétt í Glasgow til ferils hans sem eins sigursælasta þjálfara allra tíma hjá enska knattspyrnuliðinu Manchester United og yfir til alvarlegs heilablóðfalls sem ógnaði lífi hans árið 2018.
Myndin mun veita sérstaklega góða innsýn í líf Fergusons. Sonur hans Jason leikstýrir myndinni og er rætt við hann ásamt hinum sonum hans, þeim Darren og Mark, og eiginkonu hans, Cathy. Auk þess munu fyrrverandi lærisveinar hans í Manchester United fara yfir málin.
„Mesti ótti minn var að glata minninu þegar ég fékk heilablóðfall árið 2018. Með því að gera þessa mynd var mér kleift að fara aftur yfir mikilvægustu augnablik lífs míns, bæði góð og slæm.
Það að Jason sonur minn leikstýri myndinni tryggir það að yfirferðin er afar hreinskilin og persónuleg,“ sagði sir Alex þegar hann ræddi myndina.
Sir Alex Ferguson: Never Give In verður frumsýnd í Bretlandi og Írlandi í lok maí á Amazon Prime-streymisveitunni og í kvikmyndahúsum. Ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu hvenær Íslendingar geta fengið að sjá hana en ljóst er að knattspyrnuáhugafólk hér á landi bíður í ofvæni.