Endurhæfing Raúl Jiménez, framherja enska knattspyrnufélagsins Wolves, gengur vel en hann er byrjaður að æfa og hreyfa sig eftir að hafa höfuðkúpubrotnað í leik með liðinu í nóvember.
Jiménez var borinn af velli í leik Wolves og Arsenal eftir harkalegt samstuð við David Luiz, miðvörð Arsenal, en hann var í rúma viku á spítala að jafna sig eftir atvikið. Þá þurfti Mexíkóinn að fara í aðgerð.
„Hann er byrjaður að æfa og endurhæfingin gengur vel, það er samt enn langt í land,“ sagði Nuno Santo, þjálfari Wolves, við Sky Sports. Úlfarnir hafa átt erfitt uppdráttar án síns helsta markaskorara, hafa aðeins unnið 13 af mögulegum 42 stigum frá því að Jiménez meiddist.