Wolves vann í kvöld 1:0-sigur á Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Sigurmarkið kom á 64. mínútu en það skráist sem sjálfsmark á Illan Meslier í marki Leeds.
Heimamenn í Wolves voru sterkari í fyrri hálfleik og fengu fín færi til að skora en Meslier varði nokkrum sinnum vel. Staðan í hálfleik var því markalaus.
Leeds fékk betri færi framan af í seinni hálfleik og fyrirliðinn Liam Cooper komst nokkrum sinnum nálægt því að skora en Rui Patricio í marki Wolves varði þá vel.
Sigurmarkið kom loks á 64. mínútu þegar Adama Traoré hristi af sér varnarmann og negldi boltanum í slána, í bakið á Meslier og í netið. Leedsarar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en allt kom fyrir ekki og Wolves fagnaði sigri.
Wolves er nú í ellefta sæti með 33 stig og Leeds í tólfta sæti með 32 stig.