Enski framherjinn Dominic Calvert-Lewin og brasilíski varnartengiliðurinn Allan eru báðir klárir í slaginn fyrir Everton eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarið og geta því spilað í borgarslagnum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
Calvert-Lewin hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli sem hann varð fyrir í 5:4-bikarsigri Everton gegn Tottenham Hotspur fyrir 10 dögum.
Allan hefur verið lengur frá, rúma tvo mánuði, eftir að hafa meiðst aftan á læri í 2:0-sigri gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni 16. desember síðastliðinn.
Þá gæti Naby Keita, miðvallarleikmaður Liverpool, snúið aftur í leikmannahóp liðsins í kvöld eftir að hafa verið frá um tveggja mánaða skeið vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir á æfingu.