„Manchester City var með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik,“ sagði Lee Dixon, fyrrverandi leikmaður Arsenal, í samtali við Símann Sport eftir 1:0-sigur City gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, á Emirates-vellinum í London í dag.
Raheem Sterling, sóknarmaður City, skoraði sigurmark leiksins strax á 2. mínútu en leikmenn Arsenal voru í hálfgerði nauðvörn í fyrri hálfleik.
Dixon gerði upp leikinn með þeim Tómasi Þórði Þórðarsyni og Bjarna Þór Viðarssyni á Símanum Sport.
„Mér fannst Arsenal aðeins komast inn í leikinn í seinni hálfleik en á sama tíma fannst mér City aldrei líklegir til þess að tapa leiknum,“ sagði Dixon.
„Arsenal sat til baka og sóknarmenn liðsins komust aldrei inn í leikinn og þeim tókst aldrei að skapa sér marktækifæri sem ógnuðu City af einhverju viti.
Mesta hættan frá Arsenal var á vinstri kantinum og það var ekkert að frétta af Pépé á hægri kantinum. Ég man varla eftir því að hafa sagt nafnið hans í lýsingunni á NBC,“ bætti Dixon við.