Manchester United er komið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á nýjan leik eftir 3:1-sigur á heimavelli gegn Newcastle í lokaleik dagsins.
Newcastle byrjaði af krafti og var það nokkuð gegn gangi leiksins þegar Marcus Rashford kom heimamönnum yfir á 30. mínútu. Aðeins sex mínútum síðar jafnaði Allan Saint-Maximin og var staðan í leikhléi 1:1.
Manchester United komst aftur yfir á 57. mínútu þegar Daniel James fékk boltann í teignum og skoraði af öryggi og tæpum 20 mínútum síðar skoraði Bruno Fernandes úr vítaspyrnu eftir að Rashford féll í teignum og þar við sat.
Manchester-liðið er nú með 49 stig, tíu stigum á eftir Manchester City á toppnum. Newcastle er í 17. sæti með 25 stig, aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti.