Liverpool þarf að kaupa nýjan framherja í sumar að mati James Pearce, blaðamanns The Athletic, en hann hefur lengi fjallað um málefni Liverpool.
Roberto Firmino er aðalframherji Liverpool en hann hefur verið langt fá sínu besta á tímabilinu og einungis skorað sex mörk í 35 leikjum með Liverpool á tímabilinu.
Firmino er orðinn 29 ára gamall en hann hefur myndað eitt besta sóknarþríeyki Evrópu undanfarin ár ásamt þeim Sadio Mané og Mohamed Salah.
„Áhrifin sem Firmino hefur á Liverpool hafa dvínað mikið,“ skrifað Pearce meðal annars um leikmanninn.
„Hann hefur skorað sex mörk í 35 leikjum og það er tölfræði sem erfitt er að horfa fram hjá. Þá hefur hann aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórtán leikjum.
Hann hefur aldrei skorað í nágrannaslagnum gegn Everton í þeim tólf leikjum sem hann hefur spilað en hann fékk klárlega besta færi Liverpool í leiknum um helgina.
Hann tók auka snertingu sem varð til þess að færið rann út í sandinn og þá átti hann nokkur skot sem voru aldrei líkleg til þess að hitta á rammann.
Markaskorun Firmino hefur legið niður á við en hann er elskaður og dáður enda óeigingjarn framherji sem leggur mikið á sig fyrir liðið.
Það er hins vegar alveg ljóst að Liverpool þarf að fara horfa í kringum sig eftir nýrri níu og framherja,“ sagði Pearce meðal annars.