José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að þjálfunaraðferðir sínar séu þær bestu í heiminum í dag.
Gengi Tottenham í undanförnum leikjum hefur verið vægast sagt dapurt en liðið hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Tottenham er komið í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 36 stig og er nú níu stigum frá Meistaradeildarsæti.
„Ég efast aldrei um mínar aðferðir sem þjálfari,“ sagði Mourinho í samtali við fjölmiðlamenn eftir 2:1-tap liðsins gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
„Stundum hafa utanaðkomandi hlutir áhrif á úrslitin inni á vellinum en þjálfunaraðferðir mínar eru þær bestu í heiminum í dag.
Það er engin krísa hjá okkur en stemningin í búningsklefanum er auðvitað ekki góð enda hata allir leikmenn liðsins að tapa.
Við gáfum allt í leikinn, neituðum að gefast upp og vorum alltaf að leita leiða til þess að jafna metin og það er eitthvað sem lið í krísu myndi ekki gera,“ bætti Mourinho við.