Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa áhuga á ítalska markverðinum Gianluigi Donnarumma.
Það er spænski miðillinn Fichajes sem greinir frá þessu en Donnaromma er samningsbundinn AC Milan á Ítalíu.
Þá er hann einnig landsliðsmarkvörður Ítalíu en þrátt fyrir að vera einungis 21 árs gamall á hann að baki 233 leiki fyrir AC Milan í öllum keppnum.
Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið AC Milan árið 2015 en samningur hans við ítalska félagið rennur út í sumar.
Donnarumma hefur ekki viljað framlengja samning sinn á Ítalíu en hann er verðmetinn á 55 milljónir punda.
Markvörðurinn á að baki 22 landsleiki fyrir Ítalíu en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2016.