Juan Mata, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, mun yfirgefa félagið í sumar þegar samningur hans rennur út.
Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en Mata er orðinn 32 ára gamall og verið í aukahlutverki hjá félaginu undanfarin tvö tímabil.
Mata gekk til liðs við United frá Chelsea árið 2014 en það var David Moyes sem keypti hann í janúarglugganum fyrir 37 milljónir punda.
Spánverjinn varð bikarmeistari með United árið 2016, deildabikarmeistari 2017 og þá vann hann Evrópudeildina með liðinu 2017.
Alls á hann að baki 267 leiki í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 50 mörk og lagt upp önnur 47.
Þá á hann að baki 41 landsleik fyrir Spán en hann er uppalinn hjá Real Madrid en sló í gegn með Valencia á árunum 2007 til 2011. Hann hefur verið orðaður við endurkomu til Spánar.