Orðnir þreyttir á Mourinho

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham. AFP

Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham eru orðnir þreyttir á José Mourinho, knattspyrnustjóra liðsins.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en gengi liðsins í undanförnum leikjum hefur alls ekki verið gott.

Liðið hefur tapað fimm af síðustu sex deildarleikjum sínum en Mourinho mætti kokhraustur í viðtal eftir 2:1-tap liðsins gegn West Ham um síðustu helgi og sagði að þjálfunaraðferðir sínar væru þær bestu í heiminum.

„Mourinho er ekki búinn að missa klefann ennþá en margir leikmenn liðsins eru orðnir mjög þreyttir á stjóranum og æfingum hans,“ segir í umfjöllun The Athletic um málið.

„Það er mikil áhersla lögð á varnarleikinn og sóknarleikurinn er í algjöru aukahlutverki. Margir sóknarmenn liðsins reyna að nýta sér þá þekkingu sem Mauricio Pochettino predikaði þegar hann stýrði liðinu þegar kemur að hlaupum og hreyfingum í sóknarleiknum.

Einfaldlega vegna þess að Mourinho leggur enga áherslu á það. Sóknarleikur Portúgalans snýst um að hreinsa frá marki og svo eiga Harry Kane og Son Heung-Min að sjá um rest,“ segir ennfremur í umfjöllun The Athletic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert