Argentínski framherjinn Sergio Agüero er í byrjunarliði Manchester City sem tekur á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta er fyrsti byrjunarliðsleikur Argentínumannsins í deildinni í fjóra mánuði.
Tímabilið hefur að stórum hluta farið í vaskinn hjá þessum mikla markaskorara vegna meiðsla og svo kórónuveirunnar en Agüero hefur aðeins náð að spila fimm leiki í úrvalsdeildinni í vetur, án þess að skora mark. Síðast var hann í byrjunarliðinu í fyrri leiknum gegn West Ham, 24. október, og þurfti hann þá að fara af velli í hálfleik vegna meiðsla.
Agüero, sem er 32 ára gamall og hefur nú leikið með City í hálft tíunda ár, hefur skorað 180 mörk í 268 leikjum fyrir félagið í úrvalsdeildinni og samtals 256 mörk í 379 mótsleikjum.