Arsenal vann sterkan 3:1-sigur á Leicester á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Leicester komst yfir snemma leiks en Arsenal svaraði vel og var sigurinn verðskuldaður.
Youri Tielemans kom Leicester yfir strax á sjöttu mínútu er hann fékk að hlaupa óáreittur upp hægri kantinn og inn í teiginn þar sem hann skilaði boltanum í netið með föstu skoti.
David Luiz jafnaði með fallegum skalla eftir fyrirgjöf frá Willian á 39. mínútu og Alexandre Lacazette kom gestunum yfir með marki úr víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir að Wilfried Ndidi fékk boltann í höndina innan teigs.
Nicolas Pépé skoraði þriðja mark Arsenal strax í upphafi seinni hálfleiks er hann kláraði af stuttu færi eftir aðra fyrirgjöf frá Willian og þar við sat.
Arsenal er í níunda sæti deildarinnar með 37 stig og Leicester í þriðja með 49.