Englandsmeistarar Liverpool eru loks komnir aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að hafa lagt botnlið Sheffield United að velli, 2:0, á Bramall Lane í kvöld.
Meistararnir hafa verið í frjálsu falli í deildinni undanfarið og voru búnir að tapa fjórum leikjum í röð í keppninni. Þeir voru þó ekki sérlega líklegir til að misstíga sig í kvöld og höfðu yfirhöndina lengst af gegn botnliði deildarinnar. Eftir markalausan fyrri hálfleik braut Curtis Jones ísinn með marki af stuttu færi á 48. mínútu eftir fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold. Gestirnir bættu svo við marki á 64. mínútu, Roberto Firmino rak knöttinn framhjá tveimur varnarmönnum og skaut svo í þann þriðja og af honum hrökk boltinn í netið, sjálfsmark Kean Bryan og staðan orðin 2:0.
Liverpool er í 6. sæti deildarinnra með 43 stig, stigi á eftir Chelsea í 5. sæti og tveimur á eftir West Ham í 4. sætinu. Langt er þó í toppinn, þar sem Manchester City situr með 62 stig. Sheffield United er áfram á botninum með 11 stig, 15 stigum frá öruggu sæti.