Crystal Palace og Fulham gerðu markalaust jafntefli í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag í leik þar sem Fulham réð lögum og lofum.
Palace átti aðeins eitt skot í öllum leiknum og sáu aldrei til sólar á meðan Fulham lék vel og fékk hvert tækifærið á fætur öðru. Áttu leikmenn Fulham alls 17 marktilraunir, þar af fimm á markið, en inn vildi boltinn ekki.
Besta færið fékk Josh Maja á 66. mínútu þegar hann slapp í gegn en skot hans fór hársbreidd fram hjá markinu.
Fulham er áfram í 18. sæti deildarinnar, þriðja og síðasta fallsætinu, en færist stöðugt nær Newcastle United í 17. sætinu og er núna þremur stigum á eftir Skjórunum.
Palace siglir lygnan sjó í 13. sætinu, 10 stigum á undan Fulham.