Gylfi Þór Sigurðsson er í byrjunarliði Everton sem mætir Southampton á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta klukkan 20. Gylfi ber fyrirliðabandið í fjarveru Séamus Coleman.
Gylfi byrjaði á varamannabekknum í síðasta leik Everton; á útivelli gegn erkifjendunum í Liverpool, en hann kom inn á sem varamaður á 59. mínútu og gulltryggði 2:0-sigur með marki úr víti á 83. mínútu.
Everton er í sjöunda sæti deildarinnar með 40 stig og fer liðið upp að hlið Liverpool í sjötta sæti með sigri. Southampton er í 14. sæti með 30 stig, sjö stigum fyrir ofan fallsæti.