Curtis Jones var á skotskónum fyrir Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu um helgina en hann tileinkaði Alisson Becker, markverði liðsins, markið í leikslok.
Alisson missti föður sinn í síðustu viku en José Becker lést af slysförum þegar hann drukknaði í stöðuvatni í suðurhluta heimalands síns Brasilíu.
Af þeim sökum var Alisson ekki í leikmannahópi Liverpool í gær en Liverpool vann 2:0-sigur gegn Sheffield United á Bramall Lane í ensku úrvalsdeildinni.
Þetta var fyrsti sigur Liverpool í deildinni síðan 31. janúar en fram að leik gærdagsins hafði Liverpool tapað síðustu fjórum deildarleikjum sínum.
„Þetta hefur verið erfitt hjá mér sjálfum og öllu liðinu undanfarnar vikur,“ sagði Jones í samtali við Sky Sports í leikslok.
„Ég vil nota tækifærið og segja að þetta mark var fyrir föður Alissons. Megi hann hvíla í friði.
Ef þú sérð þetta Ali þá var þetta mark fyrir þig,“ bætti Jones við.