Nat Phillips og Ben Davies, miðverðir Liverpool, eru klárir í slaginn og geta spilað með liðinu þegar það tekur á móti Fulham á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Ozan Kabak er þó smávægilega meiddur og mun líklega missa af leiknum.
Frá þessu greindi Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, á blaðamannafundi í dag.
Phillips var ekki í leikmannahópi Liverpool í 0:1-tapinu gegn Chelsea í deildinni í gærkvöldi vegna smávægilegra meiðsla. Hann er búinn að jafna sig á þeim og mun því að öllum líkindum spila í hjarta varnarinnar á sunnudaginn.
Ben Davies hefur verið að glíma við meiðsli síðan hann gekk til liðs við Liverpool í byrjun síðasta mánaðar en er nú orðinn leikfær. Hann hefur ekki enn spilað fyrir liðið.
Ozan Kabak, sem var sömuleiðis keyptur í byrjun febrúar og hefur spilað undanfarna leiki Liverpool í miðverði, er að glíma við smávægilegt vandamál í tengslum við líkamlegt form sitt og mun því væntanlega ekki spila um helgina, þótt búist sé við að hann verði klár í slaginn í síðari leik liðsins gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu næstkomandi miðvikudag.