Eftir níu leiki í röð án sigurs, þar af átta tapleiki, gat Southampton loks fagnað í dag er liðið vann 2:0-útisigur á botnliði ensku úrvalsdeildarinnar Sheffield United.
Southampton komst yfir á 32. mínútu er James Ward-Prowse skoraði af öryggi úr vítaspyrnu eftir að Ethan Ampadu tók Nathan Tella niður innan teigs. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Che Adams, sem kom inn á sem varamaður fyrir meiddan Danny Ings á 13. mínútu, bætti við öðru markinu á 49. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs og þar við sat.
Southampton er í 14. sæti með 33 stig en Sheffield United er sem fyrr í botnsætinu með 14 stig.