Sam Allardyce knattspyrnustjóri WBA er allt annað en sáttur við forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar. Sakar hann deildina um að reyna að fella liðið hans.
WBA leikur við Newcastle á sunnudagsmorgun og Allardyce segir of stuttan tíma hafa liðið frá síðasta leik liðsins, en WBA mætti Everton á fimmtudag.
„Við vildum spila á mánudaginn en deildin sagði nei. Í staðinn fáum við leik í hádeginu á sunnudegi. Takk kærlega fyrir að reyna að fella okkur. Við erum alltaf hundsaðir,“ sagði Allardyce pirraður á blaðamannafundi.
Lærisveinar Allardyce eru í 19. sæti með 17 stig, níu stigum frá öruggu sæti.