Gylfi Þór Sigurðsson er í byrjunarliði Everton sem mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stamford Bridge í London í dag.
Gylfi Þór er með fyrirliðabandið en íslenski landsliðsmaðurinn hefur verið í fantaformi með Everton í síðustu leikjum.
Miðjumaðurinn hefur lagt upp tvö mörk í síðustu tveimur leikjum Everton en bæði mörkin reyndust vera sigurmörk.
Fyrst í 1:0-sigri gegn Southampton á Goodison Park og svo í 1:0-sigri gegn WBA í London en Richarlison skoraði bæði mörkin eftir sendingu frá Gylfa.
Everton er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 46 stig en getur skotist upp fyrir Chelsea í fjórða sætið með sigri í dag.