Knattspyrnumaðurinn Georginio Wijnaldum vill ekki ræða samningsmálin sín en Hollendingurinn er samningsbundinn Englandsmeisturum Liverpool út leiktíðina.
Liverpool er í krísu og hefur nú tapað fimm heimaleikjum í röð í úrvalsdeildinni og sagði hollenski miðjumaðurinn í viðtali við beIN sports eftir 1:0-tap gegn Fulham í gær að nú væri ekki rétti tíminn til að ræða framtíðina. „Það sem skiptir máli akkúrat núna er að við snúum saman bökum sem lið og reynum að ná betri úrslitum,“ sagði Wijnaldum en enskir fjölmiðlar eru fullvissir um að hann yfirgefi félagið í sumar.
„Ég get ekkert sagt því það er ekkert nýtt að frétta, ég vona að stuðningsmennirnir skilji það,“ bætti hann við. Wijnaldum gekk til liðs við Liverpool frá Newcastle, sumarið 2016, en hann á að baki 223 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 22 mörk.