Cavani líður illa á Englandi

Edison Cavani.
Edison Cavani. AFP

Margreyndi knattspyrnumaðurinn Edison Cavani samdi við Manchester United fyrir leiktíðina og hefur skorað sex mörk í 18 leikjum á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Hann er vinsæll meðal stuðningsmanna liðsins en er þó sagður vilja yfirgefa England í sumar.

Cavani gekk á frjálsri sölu til United fyrir tímabilið og skrifaði undir eins árs samning með möguleika á aukaári. Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, er einn þeirra sem hefur hrósað Úrúgvæanum fyrir innkomu hans í ensku deildina en faðir Cavani, Luis, segir að sonurinn sé ekki alsæll í Manchester.

„Sonur minn er ekki ánægður á Englandi og vill komast nær fjölskyldunni, hann vill spila í Suður-Ameríku,“ sagði Cavani eldri við Superfutbol í Argentínu. „Ég reikna með að hann komi aftur heim í júní, þegar samningur hans rennur út,“ bætti hann við.

Cavani er 34 ára gamall og þótt almennt hafi gengið vel á vellinum hjá framherjanum var hann úrskurðaður í þriggja leikja bann og sektaður um 100 þúsund pund um áramótin fyrir að hafa notað orðatiltæki tengt kynþátta­for­dóm­um á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert