Raphinha, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Leeds, er eftirsóttur af stærstu liðum Englands.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en fyrr í þessum mánuði var leikmaðurinn sterklega orðaður við Englandsmeistara Liverpool.
Í dag var leikmaðurinn svo orðaður við Manchester United en Raphinha hefur slegið í gegn í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Raphinha gekk til liðs við Leeds frá Rennes í Frakklandi fyrir tímabilið en enska félagið borgaði 17 milljónir punda fyrir leikmanninn.
Raphinha hefur skorað fimm mörk í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og þá hefur hann einnig lagt upp önnur fimm mörk fyrir liðsfélaga sína.
Hann er samningsbundinn Leeds til sumarsins 2024 en hann er 24 ára gamall og metinn á 25 milljónir punda í dag.