Mark Noble, fyrirliði og miðjumaður enska knattspyrnuliðsins West Ham United, hefur framlengt samning sinn við félagið um eitt ár og jafnframt staðfest að það verði hans síðasta.
Noble verður 34 ára í maí en hann hefur verið samningsbundinn Lundúnaliðinu síðan árið 2000. Hann hefur spilað 454 leiki fyrir félagið og skoraði 54 mörk en fyrir utan stutta lánsdvöl hjá Hull og Ipswich árið 2006 hefur hann aldrei leikið fyrir annað félag.
„Næsta tímabil verður mitt átjánda og síðasta,“ sagði Noble í bréfi til stuðningsmanna en hann hefur spilað minna í vetur en oft áður, aðeins komið við sögu í 14 úrvalsdeildarleikjum.