Manchester United undirbýr að kaupa markvörð í félagsskiptaglugganum næsta sumar í ljósi óvissunar sem ríkir um framtíð Davids de Gea.
De Gea hefur ekki spilað með United í síðustu tveimur leikjum liðsins en Spánverjinn sneri heim til að vera viðstaddur fæðingu frumburðarins. Fjölmiðlar þar í landi hafa velt því fyrir sér hvort De Gea vilji yfirhöfuð snúa aftur til Manchester en hann var um árabil orðaður við Real Madríd.
Dean Henderson hefur stigið inn í mark United í fjarveru Spánverjans og staðið sig vel en forráðamenn félagsins telja sig þó þurfa að bæta við sig markverði ef De Gea fer, sérstaklega vegna þess að varamarkvörðurinn Sergio Romero, sem verður samningslaus í sumar, er að öllum líkindum einnig á förum frá félaginu.
Samkvæmt Sky Sports er Jan Oblak efstur á óskalista Manchester-liðsins en hann er markvörður Atlético Madríd á Spáni og lengi verið talinn einn af þeim bestu í heimi. Slóveninn er 28 ára gamall og sagður falur fyrir um 100 milljónir punda. Reynist það of stór verðmiði gæti United reynt við Gianluigi Donnarumma, markvörð AC Milan.