Skallasérfræðingurinn kominn með heilabilun

Gordon McQueen stekkur hæst allra og skorar fyrir Skotland gegn …
Gordon McQueen stekkur hæst allra og skorar fyrir Skotland gegn Englandi á Wembley árið 1977. Ljósmynd/Dennis Straughan

Skoski knattspyrnumaðurinn Gordon McQueen sem lék á fjórða hundrað deildaleiki með Manchester United og Leeds hefur verið greindur með heilabilun. Dóttir hans telur ljóst að það megi rekja til þess hversu oft og mikið hann skallaði bolta á ferlinum.

McQueen er 68 ára gamall og var geysiöflugur miðvörður, sterkur skallamaður og skoraði mörg mörk með höfðinu. Hann gerði 35 deildamörk fyrir Manchester United og Leeds á árunum 1972 til 1985 og fimm mörk í 30 landsleikjum fyrir Skotland, eitt þeirra í 2:1-sigri gegn Englandi á Wembley árið 1977, í úrslitaleik bresku meistarakeppninnar.

Hayley McQueen, dóttir Gordons, starfar sem íþróttafréttamaður en hún sagði í morgunþætti BBC að hún hefði ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið og oft faðir sinn hefði skallað bolta á ferli sínum.

„Ég áttaði mig ekki á því að fyrir utan leikina hefði hann líka skallað bolta í gríð og erg á öllum æfingum um árabil. Það hefur komið upp í huga minn hversu grimmt það er að leikurinn sem gaf honum svona mikið hafi núna tekið svona stóran hluta af honum frá okkur,“ sagði Hayley McQueen.

Gordon McQueen með Yvonne eiginkonu sinni og Hayley dóttir þeirra …
Gordon McQueen með Yvonne eiginkonu sinni og Hayley dóttir þeirra er til hægri. Ljósmynd/BBC/úr einkasafni

„Hann skoraði mörg eftirminnileg skallamörk. Ein af myndunum á heimilinu er af honum svífandi í loftinu að skora skallamark gegn Englandi og hann er afar stoltur af henni. En hann segir að kannski hefði hann hagað æfingunum öðruvísi ef einhver hefði varað hann við þessu. Það er ekki hægt að segja neitt við því  þetta er ekki neinum að kenna. Enginn vissi hvaða áhrif þetta gæti haft, en nú vitum við að ef ekkert verður að gert mun verða hægt að kenna einhverjum um,“ sagði Hayley sem hvetur til þess að æfingar barna og ungmenna, og leikurinn í heild sinni, verði endurskipulagðar út frá þessari vitneskju.

Eftir að fleiri slík dæmi hafa komið upp á Bretlandseyjum á síðustu árum hefur verið bannað að láta börn 11 ára og yngri skalla bolta á æfingum á Englandi, Skotlandi og á Norður-Írlandi.

„Þetta er stórt skref í rétta átt, en hvað með unglingsárin á meðan heilinn er enn að þroskast? Kannski þarf að breyta fótboltanum út af þessu, en hvað með það? Ef það bjargar lífi og heilsu fólks  skiptir það þá máli? Það þarf að breyta reglunum í fótbolta. Ekki bara hjá ellefu ára og yngri heldur þarf að fara í gegnum þetta í öllum aldursflokkum, líka í  atvinnufótboltanum,“ sagði Hayley McQueen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert