Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, mun ekki taka við þýska landsliðinu næsta sumar.
Þetta staðfesti hann á blaðamannafundi í dag en þýska knattspyrnusambandið tilkynnti á samfélagsmiðlum sínum í morgun að Joachim Löw myndi láta af störfum eftir EM 2021 sem fram fer í sumar.
Klopp hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá Þjóðverjum en flestir áttu von á því að Löw myndi hætta með Þjóðverja eftir HM 2022.
„Ég er ekki að fara að taka við þýska landsliðinu,“ sagði Klopp á blaðamannafundi fyrir síðari leik Liverpool og RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á morgun en fyrri leik liðanna lauk með 2:0-sigri Liverpool.
„Ég mun ekki taka við liðinu í sumar né næsta sumar. Ég er samningsbundinn Liverpool næstu þrjú árin.
Ég skrifaði undir langtímasamning við félagið á sínum tíma og markmiðið er að virða þann samning,“ bætti Klopp við.