Anthony Martial, framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester United, fór meiddur af velli þegar United og AC Milan gerðu 1:1-jafntefli í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í kvöld.
Martial var í byrjunarliði United en var skipt af velli í hálfleik fyrir Amad Diallo sem skoraði eina mark United í leiknum.
Marcus Rashford og Edinson Cavani, sóknarmenn United, eru báðir að glíma með meiðsli og óvíst að þeir verði klárir í slaginn um helgina þegar United tekur á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni.
„Anthony fékk högg á mjöðmina og hann mun þurfa gangast undir frekari rannsóknir áður en við tökum ákvörðun um framhaldið,“ sagði Solskjær í samtali við fjölmiðla eftir leik.
„Ég reikna ekki með því að Marcus Rashfod verði klár í slaginn um helgina gegn West Ham og sömu sögu er að segja um Edinson Cavani,“ bætti Norðmaðurinn við.