David de Gea, markvörður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, verður ekki á milli stanganna er liðið mætir West Ham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og virðist hreinlega vera óvíst hvenær hann snýr aftur.
Spánverjinn hefur verið í leyfi síðan í byrjun mánaðarins en hann sneri aftur til heimalandsins til að vera viðstaddur fæðingu fyrsta barns síns. Unnusta De Geas, Edurne Garcia, er búsett á Spáni. Það hefur því fallið í skaut Dean Henderson að verja mark United í undanförnum leikjum.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, staðfesti svo á blaðamannafundi í morgun að hann væri ekki viss hvenær Spánverjinn gæti byrjað að spila aftur. De Gea er kominn aftur til Englands en er sem stendur í sóttkví. „Ég veit ekki hvenær hann kom til Englands og því ekki viss hver staðan á honum er, hann er í sóttkví og getur ekki æft með okkur á meðan,“ sagði Norðmaðurinn.
Henderson mun því spila sinn fjórða byrjunarliðsleik í röð um helgina en mikil samkeppni er þeirra á milli um markvarðarstöðu liðsins.