Burnley vann 2:1-sigur á Everton er liðin mættust á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Everton hefur nú tapað sjö af 14 heimaleikjum sínum á tímabilinu.
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði gestanna sem byrjuðu af miklum látum. Chris Wood kom þeim í forystu á 13. mínútu með skoti í hægra hornið eftir fyrirgjöf frá Dwight McNeil sem sjálfur bætti við marki tíu mínútum síðar.
Hann lék þá illa á Allan fyrir utan teig og sneri svo boltann glæsilega upp í samskeytin vinstra megin, eitt af mörkum tímabilsins. Jóhann Berg var svo nálægt því að skora þriðja mark Burnley tveimur mínútum síðar er skot hans utan teigs small í stönginni.
Dominic Calvert-Lewin minnkaði muninn fyrir Everton á 32. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Tom Davies og var staðan 2:1 í hálfleik. Bæði lið fengu svo færi eftir hlé og þó heimamenn hafi reynt að knýja fram jöfnunarmark voru gestirnir ekki síður sprækir. Jóhann Berg var tekinn af velli á 66. mínútu en samherji hans hjá íslenska landsliðinu, Gylfi Þór Sigurðsson var ónotaður varamaður hjá Everton.
Burnley er í 15. sæti deildarinnar með 33 stig en Everton er í 6. sæti með 46 stig.