Leeds United og Chelsea gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Í fyrri hálfleiknum small boltinn small í þverslá beggja liða með stuttu millibili. Á 10. mínútu hreinsaði Luke Ayling boltanum í samherja sinn Diego Llorente þar sem boltinn sveif í þverslá marks þeirra. Fimm mínútum síðar átti Tyler Roberts frábært skot en það fór sömu leið á marki Chelsea eftir að Edouard Mendy, markvörður liðsins, hafði náð að slæma fingurgómunum í boltann.
Kai Havertz fékk svo tvö góð tækifæri til þess að skora í fyrri hálfleiknum en brást bogalistin í bæði skiptin, fyrst eftir nokkurra mínútna leik og svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Hann fékk annað tækifæri til þess að skora snemma í síðari hálfleiknum en aftur tókst honum það ekki. Í öllum þremur færunum varði Illan Meslier í marki Leeds.
Leeds fékk sömuleiðis fín færi til þess að skora, næst því komst Llorente á 77. mínútu þegar Reece James náði að komast í veg fyrir skot hans og bjarga þar með í horn.
Hvorugt liðið náði þó að skora og þurftu þau því að sættast á eitt stig hvort.
Chelsea er eftir jafnteflið áfram í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er enn taplaust undir stjórn Thomas Tuchel í öllum keppnum, þar sem liðið hefur unnið átta leiki og gert fjögur jafntefli í 12 leikjum.
Leeds siglir áfram lygnan sjó í deildinni og er í 11. sæti.