Arsenal vann 2:1-sigur á Tottenham þegar liðin mættust í grannaslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld í viðburðaríkum fótboltaleik.
Arsenal var töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleik og var það því gegn gangi leiksins þegar Érik Lamela skoraði stórkostlegt mark á 33. mínútu. Lamela skoraði þá með svokallaðri Rabona-spyrnu.
Norðmaðurinn Martin Ødegaard skoraði verðskuldað jöfunarmark á 44. mínútu er hann kláraði úr teignum eftir sendingu frá Keiran Tierney og var staðan í hálfleik 1:1.
Arsenal komst yfir með marki úr víti á 64. mínútu þegar Davinson Sánchez braut á Alexandre Lacazetta innan teigs. Frakkinn tók spyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi.
Vont varð verra fyrir Tottenham þegar markaskorarinn Lamela fékk tvö gul spjöld með sjö mínútna millibili og þar með rautt stundarfjórðungi fyrir leikslok.
Þrátt fyrir rauða spjaldið var Tottenham nálægt því að jafna og átti Harry Kane m.a. skot í stöngina úr aukaspyrnu, en inn vildi boltinn ekki og Arsenal fagnaði.