Brighton sótti mikilvæg þrjú stig í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag er liðið lagði Southampton að velli, 2:1, á St. Mary's leikvanginum. Með sigrinum er Brighton þremur stigum frá fallsæti þegar tíu umferðir eru eftir.
Gestirnir þurftu sárlega á sigri að halda til að spyrna sé aðeins frá neðstu liðum og það voru þeir sem tóku forystuna eftir rúman stundarfjórðung. Pascal Gross lyfti þá boltanum inn í vítateig úr hornspyrnu og Lewis Dunk skallaði boltann kröftuglega í netið. Heimamenn voru þó ekki lengi að jafna, en ellefu mínútum síðar skoruðu þeir, einnig í kjölfar hornspyrnu. Eftir smá darraðardans barst boltinn til Che Adams sem skoraði inn í vítateig, þriðja markið hans í þremur leikjum eftir að hafa verið markalaus í 14 leikjum þar á undan.
Gestirnir náðu þó aftur forystunni á 56. mínútu. Danny Welbeck stakk þá boltanum inn á Leandro Trossard, sem einn á einn gegn Fraser Forster í markinu, þrumaði knettinum upp í hornið. Það reyndist mikilvægt sigurmark Brighton-manna en erfið staða Southampton heldur áfram. Dýrlingarnir hafa tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og eru nú með 33 stig í 14. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Brighton í 16. sæti.