Drakk flösku af púrtvíni og sló svo markametið

Jamie Vardy er heldur skrautlegur karakter.
Jamie Vardy er heldur skrautlegur karakter. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Jamie Vardy teygaði úr næstum heilli flösku af púrtvíni kvöldið áður en hann sló markamet Ruuds van Nistelrooy í ensku úrvalsdeildinni árið 2015 en fyrrverandi liðsfélagi hans sagði frá þessari skrautlegu sögu.

Vardy skoraði í 11 úrvalsdeildarleikjum í röð tímabilið 2015-16 er Leicester varð Englandsmeistari en framherjinn skoraði alls 24 mörk á tímabilinu. Þáverandi liðsfélagi hans, Ritchie De Laet, sem nú spilar með Royal Antwerp í Belgíu, hefur sagt frá því að Vardy hafi drukkið ekkert lítið af púrtvíni kvöldið áður en hann skoraði í ellefta leiknum í röð.

„Við vorum með okkar seremóníu kvöldið fyrir leiki, fengum rútubílstjórann til að smygla flösku af púrtvíni upp á hótel,“ sagði De Laet í viðtali við Sportwereld.

„Ég fékk mér lítið staup, Vardy kláraði flöskuna. Daginn eftir sló hann markametið, þvílíkur náungi,“ bætti Belginn við.

Vardy, 34 ára, var keyptur til Leicester af utandeildarfélaginu Fleetwood árið 2012 og er hann þekktur fyrir heldur óhefðbundið líferni miðað við aðra atvinnumenn í knattspyrnu. Í ævisögu sinni sagði framherjinn frá því að hann drykki að jafnaði þrjár dósir af orkudrykknum Red Bull á leikdegi og með þeim borði hann egg og beikon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert