Pierre-Emerick Aubameyang fyrirliði Arsenal fær sér sæti á varamannabekknum er liðið mætir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta klukkan 16:30. Mikel Arteta knattspyrnustjóri liðsins segir fyrirliðann á bekknum vegna agabrots.
Spænski stjórinn vildi ekki fara nánar út í brot sóknarmannsins, en viðurkenndi í viðtali við Sky að Aubameyang átti að byrja leikinn, enda skorað sex mörk í síðustu sex leikjum.
„Hann átti að byrja, en það var agabrot. Við verðum að halda áfram og hann er á bekknum. Það er ferli fyrir hvern leik sem leikmenn verða að virða,“ sagði Arteta við Sky.