Knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær mun skrifa undir nýjan samning hjá Manchester United á næstu dögum en hann á sem stendur ár eftir af núverandi samningi sínum við félagið.
Norðmaðurinn tók við stjórnartaumum hjá United í desember 2018 eftir að José Mourinho var rekinn úr starfinu. Fyrst var hann ráðinn til bráðabirgða en skrifaði svo undir þriggja ára samning í apríl 2019.
Liðinu hefur gengið upp og ofan síðan en hefur þó líklega átt sitt besta tímabil undir stjórn Solskjærs í vetur, United er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og lagði nágranna sína í City að velli um síðustu helgi.
Ensku götublöðin, Daily Mail, Sun og Metro, segja nú öll frá því að forráðamenn félagsins vilji gera nýjan samning við Solskjær. John Murtough var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá United á dögunum og Darren Fletcher, fyrrverandi leikmaður liðsins, var einnig ráðinn í nýtt starf en hann er yfirmaður tæknimála og mun hafa milligöngu milli akademíu félagsins og aðalliðsins.