„Það er eitthvað við Norður-Lundúnaslaginn og kraftinn sem fylgir honum, jafnvel þó það sé langt síðan ég hætti þá finn ég fyrir honum,“ sagði Ian Wright, sem lék með Arsenal um árabil og er vel kunnugur mikilvægi þess að vinna Tottenham þegar nágrannaliðin mætast í ensku úrvalsdeildinni.
Wright skoraði sjálfur fimm mörk í 10 leikjum í Norður-Lundúnaslagnum í ensku úrvalsdeildinni en Tottenham hefur haft undirtökin í viðureigninni undanfarin ár þar sem liðið hefur unnið tvo síðustu leiki í ensku úrvalsdeildinni.
„Arsenal er á betri stað núna, hugarfarið er gott og liðið er á þeim stað að geta spilað vel og skapað færi til að skora mörk.“
Liðin mætast í dag kl. 16.30 og verður leikurinn, sem fer fram á Emirates-velli Arsenal, sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport. Upphitun hefst klukkan 16.