Manchester United er komið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á nýjan leik eftir 1:0-sigur á West Ham á heimavelli í kvöld. Sigurmarkið reyndist sjálfsmark hjá miðverðinum Craig Dawson snemma í seinni hálfleik.
Heimamenn í Manchester United voru töluvert sterkari í fyrri hálfleik en Lukasz Fabianski í marki West Ham varði nokkrum sinnum vel. Besta varslan kom eftir gott skot frá Mason Greenwood en pólski markvörðurinn gerði gríðarlega vel í að slá boltann í horn.
Fyrsta markið kom á 53. mínútu er miðvörðurinn Craig Dawson skallaði boltann í eigið net eftir hornspyrnu. Þrátt fyrir fínar tilraunir hjá Manchester-liðinu urðu mörkin ekki fleiri og gat West Ham helst þakkað Fabianski í markinu. Hinum megin ógnaði West Ham lítið sem ekkert.
Manchester United er nú í öðru sæti með 57 stig og West Ham í fimmta sæti með 48 stig.