Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Arsenal, mætti of seint þegar liðið tók á móti Tottenham í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-vellinum í London í gær.
Framherjinn átti að byrja leikinn enda fyrirliði liðsins en þar sem hann mætti ekki á réttum tíma tók Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hann því út úr liðinu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Aubameyang mætir of seint á leikdegi og er Arteta orðinn þreyttur á framherjanum að sögn The Athletic.
Aubameyang mætti ekki í kórónuveirupróf fyrr á tímabilinu og þá braut hann sóttvarnareglur í vetur þegar hann fékk sér húðflúr.
Aubameyang var fyrsti leikmaðurinn til þess að yfirgefa Emirates-völlinn í gær eftir að flautað hafði verið af.
Aðrir varamenn Arsenal voru þá á vellinum með styrktarþjálfara liðsins, Shad Forsythe, þeir leikmenn sem byrjuðu leikinn voru að skokka sig niður.
Óvíst er hvort Aubameyang hafi fengið leyfi til að bruna heim strax eftir leik eða gert það í leyfisleysi.