Lundúnaliðin horfa til Ítalíu

Paulo Dybala er að glíma við meiðsli á hné.
Paulo Dybala er að glíma við meiðsli á hné. AFP

Paulo Dybala, sóknarmaður Ítalíumeistara Juventus í knattspyrnu, er á óskalista Chelsea og Tottenham.

Það er France Football sem greinir frá þessu en Dybala, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við Juventus frá Palermo sumarið 2015.

Dybala hefur verið óheppinn með meiðsli á tímabilinu en hann hefur aðeins byrjað átta leiki í ítölsku A-deildinni þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

Hann lék síðast með Juventus 10. janúar gegn Sassuolo en þurfti að fara af velli á 43. mínútu vegna meiðsla.

Dybala er samningsbundinn Juventus til sumarsins 2022 en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning á Ítalíu.

Juventus gæti því freistast til þess að selja hann næsta sumar, á meðan félagið fær eitthvað fyrir hann, en Dybala er verðmetinn á 70 milljónir punda.

Alls hefur hann skorað 98 mörk og lagt upp önnur 40 í 244 leikjum fyrir Juventus í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert