Ralph Hasenhüttl, knattspyrnustjóri Southampton í ensku úrvalsdeildinni, segir það fáránlegt að leikmenn ferðist heimsálfa á milli til að spila landsleiki í miðjum heimsfaraldri.
Knattspyrnumenn munu ferðast víða í næstu viku til að taka þátt í landsliðsverkefnum og fá þeir flestir undanþágur frá sóttvarnareglum hverrar þjóðar fyrir sig til að geta ferðast á milli landa. Hasenhüttl sagði við Sky Sports að hann gæti lítið gert annað en að bíða og vona að sem flestir skili sér heilir til baka.
„Þegar þú skoðar hversu erfitt er að ferðast akkúrat núna, þá finnst mér þetta fáránlegt. Við megum ekki fara út úr landinu almennt en svo ferðast fótboltamenn á milli heimsálfa til að spila landsleiki,“ sagði Austurríkismaðurinn.
Tók hann sem dæmi Takumi Minamino, japanska framherjann sem er á láni frá Liverpool. Sá þarf að ferðast til heimalandsins til að spila vináttulandsleik gegn Suður-Kóreu og snúa svo aftur til Englands. „Nú verð ég bara að bíða og vona að þessir leikmenn komi heilir til baka og geti spilað með okkur í næstu leikjum.“